103. aðalfundur Umf. Þ.Sv. 

Fréttir af aðalfundi

Að kveldi þriðjudagsins 26. mars hélt ungmennafélagið aðalfund. Eftir því sem næst verður komist var þetta 103. aðalfundur félagsins. Eftir að Jón Haraldur hafði flutt skýrslu stjórnar og Einar lesið upp ársreikninga var rætt vítt og breitt um hin ýmsu mál. Þar á meðal minningarsjóð Óskar Þórsdóttur frá Bakka, snjóalög á fótboltavellinum og raunverulegan fjölda félagsmanna í ungmennafélaginu, 

Samþykkt var að innheimta ekki árgjöld fyrir árið 2024 og þá var samþykkt að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann. 

Eftir þrettán ára formennsku ákvað Jón Haraldur að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en hann kom fyrst inn í stjórn ungmennafélagsins árið 2006. Þá gaf Ómar Hjalti Sölvason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en hann kom inn í stjórn félagsins árið 2014 sem meðstjórnandi.  Nýir inn í stjórn komu þeir Jón Bjarki Hjálmarsson og Eiður Smári Árnason. Auk þeirra eru í stjórn þau Einar Hafliðason, Friðrik Arnarson og Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir. Þegar þetta er ritað á ný stjórn eftir að funda og skipta með sér verkum. 

Eitt og annað var rætt til viðbótar. Til að mynda var rætt um hvernig ætti að nýta peningagjöf frá þorrablótsnefnd en sú gjöf á að nýtast félagsheimilinu Rimum. Þá var rætt um afmælisritið sem hefur verið í vinnslu síðustu ár. Handritið er nú tilbúið til yfirlestrar og verður það eitt helsta verkefni ársins að klára ritið og gefa það út.