Fréttir af 101. aðalfundi
101. aðalfundur Umf. Þ.Sv. var haldinn á Rimum laugardagskvöldið 2. apríl. Að segja að fundurinn hafi verið haldinn að viðstöddu fjölmenni væru ýkjur en fundurinn gekk afar vel fyrir sig, því verður ekki neitað.
Eftir að Jón Haraldur formaður hafði flutt skýrslu stjórnar las Einar Hafliðason gjaldkeri upp reikninga félagsins og voru þeir samþykktir. Fjárhagsstaða félagsins er góð og reksturinn réttum megin við núllið.
Kosið var um þá Jón Harald Sölvason og Ómar Hjalta Sölvason í stjórn. Þeir gáfu kost á sér áfram og voru kosnir með lófaklappi.
Stjórn félagsins skipa Jón Haraldur Sölvason, Friðrik Arnarson, Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir, Einar Hafliðason og Ómar Hjalti Sölvason. Í varastjórn félagsins eru Jón Bjarki Hjálmarsson, Kjartan Snær Árnason og Eiður Smári Árnason.
Hefðbundin fundarefni voru til umræðu á fundinum, þar á meðal ástand fótboltavallarins, áhrif COVID-19 á rekstur sjoppunnar og aldarafmæli félagsins. Þá var rætt um að á mörgum bæjum í sveitinni væru bændur að drukkna í brennuefni og eldsmat sem ekki hefur fengist leyfi til að kveikja í á þrettándabrennu Umf. Þ.Sv. við Tungurétt undanfarin tvö ár. Síðasta brenna var haldin í janúar 2020 en engin brennuleyfi hafa verið gefin út síðan þá vegna COVID-19. Horfa menn nú fram á bjartari tíma hvað það varðar.
Í lok fundar var rætt um hvernig standa ætti að hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis félagsins. Þau Margrét og Þórarinn frá Tjörn hafa unnið að gerð afmælisrits og er stefnt að útgáfu í einhverju formi fyrir árslok. Þá var samþykkt að stefna að afmælisveislu á Rimum á komandi sumri.
Eftir líflegar umræður um heima og geima sleit Jón Haraldur formaður fundi og bað fundargesti vel að lifa.