Fréttir af 102. aðalfundi Umf. Þ.Sv.
Fréttir af 102. aðalfundi
Miðvikudagskvöldið 5. apríl fór 102. aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar fram í félagsheimilinu Rimum. Ýmislegt má segja um fundinn en þó verður því seint haldið fram að fundurinn hafi verið fjölmennur.
Ýmislegt var til umræðu en þá einna helst sú staðreynd að félaginu tókst að halda upp á 100 ára afmæli sitt með veislu á Rimum síðla sumars 2022. Þau Margrét Guðmundsdóttir og Þórarinn Hjartarson hafa síðustu misseri unnið að því að taka saman efni og fróðleik úr sögu félagsins. Stjórn félagsins einsetur sér að hægt verði að gefa út afmælisrit á einhverju formi áður en þetta ár er á enda.
Skipað var í íþróttanefnd, afmælisnefnd, sjoppunefnd og brennunefnd og þá voru þau Einar Hafliðason, Friðrik Arnarson og Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir endurkjörin í stjórn félagsins.
Lítið var rætt um ástand fótboltavallarins að þessu sinni. Stjórn félagsins bindur vonir við að það muni rigna minna á komandi sumri en því síðasta, enda fór grasspretta síðasta sumars úr böndunum og þar með ástand vallarins.
Önnur mál fóru hingað og þangað en þegar stjórn og fundarmaður höfðu fengið fylli sína af Tommupítsum þótti Jóni Haraldi formanni rétt að slíta fundinum.