Fréttir af 100. aðalfundi Umf. Þ.Sv.
100. aðalfundur Umf. Þ.Sv. fór fram á Rimum þann 16. júní 2021. Fundurinn var fámennur en afar góðmennur - og var sprittið alltumlykjandi og sóttvarnartakmörkunum fylgt í hvívetna.
Fyrir fundinum lágu tvær tillögur og voru þær báðar samþykktar einróma.
a. að ekki verði innheimt árgjald fyrir árið 2021.
b. að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann.
Kjósa átti um Einar Hafliðason, Friðrik Arnarsson og Jónín H. Gunnlaugsdóttur í stjórn. Þau gáfu öll kost á sér aftur og voru kosin með lófaklappi. Auk þeirra sitja í stjórn þeir Jón Haraldur og Ómar Hjalti Sölvasynir. Varastjórn var kosin til eins árs, Jón Bjarki Hjálmarsson, Kjartan Árnason og Eiður Árnason.
Mestar umræður á fundinum snérust um yfirvofandi 100 ára afmæli félagsins en afmælisdagurinn er 27. desember 2021. Búið er að fá þau Margréti Guðmundsdóttur og Þórarinn Hjartarson frá Tjörn til að taka saman efni úr 100 ára sögu félagsins í afmælisrit. Af nógu efni er að taka enda var mikill þróttur í starfinu á sínum tíma og m.a. gáfu félagar út blaðið Árblik í yfir þrjá áratugi fyrir miðja 20. öld. Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins á Dalvík hefur komið á rafrænt form fundargerðarbókum og handskrifuðum gögnum sem þar eru í varðveislu og geyma ómetanlegar heimildir um starfsemina. Í þessum gögnum hafa Margrét og Þórarinn verið að grúska og er það áframhaldandi verkefni næsta misserið að minnsta kosti. Stjórn og afmælisnefnd sem í sitja Jón Bjarki Hjálmarsson, Eiður Smári Árnason, Jón Haraldur Sölvason og Einar Hafliðason, verða Margréti og Þórarni innan handar við ritunina.
Nú þegar er búið að afla styrkja og styrkvilyrða vegna afmælisritsins frá Fræðslu- og verkefnasjóð UMSE, KEA, UMFÍ og Dalvíkurbyggð og fyrirhugað er að sækja um frekari styrki komandi vetur, þegar vinna við ritunina er farin að taka á sig mynd.
Samkomutakmarkanir og sóttvarnarhömlur hafa komið í veg fyrir að hægt hafi verið að halda brúsmót en vonir eru bundnar við að það takist á 100 ára afmælisdaginn, þann 27. desember 2021 á Rimum. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort það takist eður ei.
Eftir að fundarmenn höfðu gætt sér á veitingum og útrætt málin sleit Jón Haraldur formaður loks fundinum.