Lög og reglugerðir
Lög U.M.F. Þorsteins Svörfuðar
Samþykkt 15. apríl 1995
1. grein
Félagið heitir Ungmennafélagið Þorteinn Svörfuður, skammstafað U.M.F. Þ. Sv.
2. grein
Tilgangur félagsins er:
1) Að reyna að vekja löngun hjá æskulýðnum til að vinna að framförum sveitarinnar og þjóðarinnar í heild.
2) Að temja sér að beita starfskröftum sínum utan félags og innan.
3) Að vinna að útrýmingu áfengra drykkja.
3. grein
Tilgangi þessum hyggst félagið ná með því að:
1) Halda sem flesta fundi, þar sem rædd eru félagsmál og önnur nauðsynjar- og framfaramál.
2) Gefa út blað.
3) Styðja framfaramál utan félags og innan eftir því sem efni félagsins og félagsmanna leyfa.
4. grein
Fullgildir félagsmenn geta þeir orðið karlar og konum sem eru fullra 16 ára. Allir er búa á félagssvæðinu yngri en 16 ára verði skráðir félagar en séu ekki skattskyldir. Æskilegt er að allir sem stunda keppni á vegum félagsins séu skráðir félagsmenn. Aðalfundur ár hvert ákveður árgjald og greiðist það fyrir lok októbermánaðar ár hvert. Þeir sem ganga í félagið eftir októberlok skulu undanþegnir árgjaldi það ár. Þykist einhver órétti beittur getur hann vísað máli sínu til aðalfundar sem hefur úrskurðarvald.
5. grein
Sýni einhver félagsmaður vanskil er stjórninni heimilt að víkja honum úr félaginu, en skotið getur hann máli sínu til aðalfundar.
6. grein
Úrsögn úr félaginu sé skrifleg og komi til stjórnar, enda sé viðkomandi skuldlaus við félagið að öðru leiti en umsömdum skuldum.
7. grein
Félaginu stjórni fimm menn:
Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi, sem kosnir eru á aðalfundi. Kosning sé skrifleg og kjörtímabil tvö ár. Einnig skulu kosnir þrír menn í varastjórn til eins árs í senn. Mannaskipti ákveðast þannig að sá sem flest atkvæði hefur tekur við af aðalstjórnarmanni ef hann forfallast. Hver félagsmaður er skyldugur að taka kosningu eitt kjörtímabil en getur neitað kosningu eitt ár. Stjórnin skipti með sér verkum. Formaður getur kallað saman stjórn eins oft og þurfa þykir.
Fyrsta árið skulu kosnir þrír menn í aðalstjórn til tveggja ára og tveir til eins árs en eftir það allir til tveggja ára.
8. grein
Störf stjórnar eru:
1) Að boða til fundar, stýra þeim og sjá um fundarefni. Heimilt er henni að kjósa fundarstjóra, fundarritara, og menn til að koma með málefni.
2) Að halda reikninga félagsins og bókfæra samþykktir þess.
3) Að innheimta og ávaxta allt það fé sem félaginu hlotnast og verja því til framkvæmdar félagsins eftir óskum fundar.
9. grein
Allir félagsmenn hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en utanfélagsmenn aðeins málfrelsi.
10. grein
Félagið haldi aðalfund fyrir lok febrúarmánaðar. Störf hans eru:
1) Að úrskurða endurskoðaða reikninga félagsins.
2) Að kjósa tvo endurskoðendur næsta ársreiknings.
3) Að ákveða starfsemi næsta árs.
4) Að kjósa stjórn félagsins.
5) Að ræða önnur mál er stjórn eða einstaklingar leggja fyrir fundinn.
11. grein
Aðalfundur og aðrir fundir skulu boðaðir með sýnilegum nægum fyrirvara og sé tekið fram í fundarboði ef um lagabreytingu eða önnur stærri mál er að ræða. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum. Til að aðalfundur sé löglegur skulu að minnsta kosti 20% félagsmanna vera mættir.
12. grein
Reikningsár félagsins er almanaksár.
13. grein
Leysist félagið upp falla eignir þess til Svarfaðardalshrepps og skal almennur sveitafundur ákveða hvernig þeim skal verja til mennta- eða búnaðarmála.
14. grein
Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið löglega fram borin og samþykkt á aðalfundi og eru þannig úr gildi fallin lög og samþykktir er brjóta í bága við þessi.