Síðasta fótboltaæfing sumarsins


Boðið var upp á fótboltaæfingar á fótboltavellinum við Rima frá miðjum júlí og fram í byrjun september. Síðasta æfingin var föstudagskvöldið 2. september og lauk sumrinu með blöndu af svita og sjoppufæði. Íþróttanefnd sá um æfingarnar en þær voru sóttar af sama kjarna og spilað hefur fótbolta á Rimum síðustu sumur.

Þann 25. ágúst var haldin svokölluð afmælisæfing, þar sem öllum áhugasömum boltaspilurum úr 100 ára sögu ungmennafélagsins var boðið að mæta og sprikla á hinum glæsilega Glæsivelli. Smám saman fjölgaði þátttakendum og að endingu voru hátt í 20 mættir í hasarinn, sem lauk með flautumarki áður en haustmyrkrið skall á.

Mögulega verður hægt að bjóða að nýju upp á reglulegar fótboltaæfingar á Rimum næsta sumar, bæði fyrir yngri og eldri iðkendur. Tíminn einn mun leiða það í ljós.