Björn Snær Atlason frjálsíþróttamaður UMSE 2022
Íþróttamaður UMSE útnefndur
Kjör íþróttamanns UMSE árið 2022 fór fram í Valsárskóla á Svalbarðseyri að kveldi 31. janúar.
Í kjörinu voru eftirtaldir:
Anna Kristín Friðriksdóttir (Hestamannafélagið Hringur) - Hestaíþróttir
Björn Snær Atlason (Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður) - Frjálsíþróttir
Elín Björk Unnarsdóttir (Sunfélagið Rán) - Sund
Esther Ösp Birkisdóttir (Skíðafélag Dalvíkur) - Skíði
Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir (Blakfélagið Rimar) - Blak
Marsibil Sigurðardóttir (Golfklúbburinn Hamar) - Golf
Ólafur Ingi Sigurðsson (Ungmennafélagið Samherjar) - Bandý
Trausti Freyr Sigurðsson (Ungmennafélagið Samherjar) - Frisbígolf
Þórhallur Þorvaldsson (Hestamannafélagið Funi) - Hestaíþróttir
Þröstur Mikael Jónasson (Ungmennafélag Svarfdæla) - Knattspyrna
Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir var útnefnd íþróttamaður UMSE árið 2022 og Trausti Freyr Sigurðsson varð annar í kjörinu. Björn Snær Atlason var útnefndur frjálsíþróttamaður UMSE og endaði hann auk þess þriðji í kjöri íþróttamanns. Frábær árangur.
Björn Snær hefur verið félagsmaður í Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði nánast frá blautu barnsbeini og heldur enn tryggð við félagið þrátt fyrir að hafa verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu mörg undanfarin ár. Björn hefur lagt stund á langhlaup og keppt undir merkjum Umf. Þ.Sv. Hin síðari ár hefur Björn keppt í maraþonhlaupum hér á landi með góðum árangri. Síðasta sumar náði hann sínum besta árangri þegar hann hljóp maraþon á undir 3 klukkustundum. Hann sigraði vormaraþon félags maraþonhlaupara í apríl á tímanum 2 klukkustundir, 49 mínútur og 33 sekúndur og varð svo þriðji í Íslandsmótinu í maraþoni (Reykjavíkurmaraþoninu) í ágúst. Þar hljóp Björn á tímanum 2 klukkustundir, 54 mínútur og 38 sekúndur sem verður að teljast magnaður árangur. Björn er mikill og góður keppnismaður og fyrirmynd annarra hvað varðar metnað og samviskusemi í ástundun íþrótta.
Til hamingju með árangurinn Björn!