Aðalfundur ungmennafélagsins fór vel fram
104. aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar var haldinn á Rimum að kveldi 10. apríl. Mæting á fundinn var afleit en það telst því miður ekki til tíðinda lengur. Þrátt fyrir þetta var mikið rætt og má þar nefna fasta liði á borð við ástand fótboltavallarins, álegg á pítsur og afmælisritið sem hefur verið í vinnslu síðustu ár. Nú loks hillir undir útgáfu en handritið er svo gott sem tilbúið og aðeins smá fínpússning eftir.
Þau Einar Hafliðason, Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir og Friðrik Arnarson gáfu öll kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Ásamt þeim sitja Jón Bjarki Hjálmarsson og Eiður Smári Árnason í stjórn félagsins.
Venju samkvæmt var skipað í nefndir félagsins - og til að halda í hefðir voru flestir þeir sem skipaðir voru fjærstaddir.
Næstu verkefni félagsins verða að koma afmælisritinu í prentun og selja blóm í aðdraganda Hvítasunnunnar.