Fótboltamót UMSE 2024

Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE) stóð fyrir fótboltamóti á Hrafnagili seinni part dags miðvikudaginn 28. ágúst. Umf. Þorsteinn Svörfuður sendi tvö lið til leiks, annars vegar krakkar fæddir 2012-2013 og hins vegar krakkar fæddir 2014 og síðar. Auk Umf. Þorsteins Svörfuðar voru á mótinu lið frá Umf. Samherjum í Eyjafjarðarsveit og Umf. Smáranum í Hörgársveit - alls um 70 keppendur í það heila.

Þrátt fyrir mikla rigningu gerðu krakkarnir gott úr öllu saman og stóðu sig með stakri prýði, enda gleðin höfð að leiðarljósi nú sem endranær. Gulir fóru á kostum og röðuðu inn mörkum í öllum regnbogans litum. Bláir sýndu flott tilþrif sömuleiðis en vissulega voru það mikil viðbrigði að spila á rennisléttum velli - gjörólíkt þeim aðstæðum sem eru til staðar við Rima í Svarfaðardal. Það er önnur saga. 

Síðasta æfing sumarsins er fyrirhuguð miðvikudagskvöldið 4. september.