Fréttir

Myndir í afmælisrit

posted Jul 16, 2020, 3:48 PM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður verður 100 ára á árinu 2021. Í tilefni komandi afmælisárs óskar stjórn félagsins eftir ljósmyndum tengdum störfum þess í gegnum tíðina sem kunna að leynast í fórum fólks. 
Hægt er að hafa samband í síma 846-1448 (Jón Bjarki) eða gegnum netfang félagsins tsv@umse.is
Stjórn Umf. Þ.Sv. 

Fréttir af 99. aðalfundi Umf. Þ.Sv.

posted Jul 16, 2020, 3:45 PM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Að kveldi þriðjudagsins 16. júní var 99. aðalfundur Umf. Þorsteins Svörfuðar haldinn. Í venjulegu árferði hefði fundurinn farið fram í mars eða apríl en vegna kórónaveirufaraldursins hafði ekki reynst unnt að halda fundinn fyrr en nú.  
Fundurinn fór fram í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal og voru aðstæður með besta móti. Mæting á fundinn var framúrskarandi góð hjá stjórninni en þar að auki mættu fundargestir til fundar og var það ánægjulegt. Þess má til gamans geta að samkvæmt opinberri skráningu eru félagsmenn nú 93 talsins. 

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar: 
a.       að ekki verði innheimt árgjald fyrir árið 2020.
b.      að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann.

Kosið var um Jón Harald Sölvason og Ómar Hjalta Sölvason í stjórn. Þeir gáfu kost á sér til áframhaldandi setu og voru endurkosnir með lófaklappi og fögnuði. Lagt var til að Sigurlaug Hanna Hafliðadóttir, Jón Bjarki Hjálmarsson og Kjartan Árnason skipi varastjórn til eins árs og var það samþykkt. Þá voru Karl Ingi Atlason og Klemenz Bjarki Gunnarsson endurkjörnir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára. Þá var kosið í sjoppunefnd, íþróttanefnd, brennunefnd og afmælisnefnd í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 2021. 

Stjórn félagsins skipa:

Jón Haraldur Sölvason, formaður

Einar Hafliðason, gjaldkeri.

Friðrik Arnarson, varaformaður.

Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir, ritari.

Ómar Hjalti Sölvason, meðstjórnandi. 

Rekstur félagsins er traustur sem fyrr en langstærsti tekjupósturinn ár hvert er styrkur frá Dalvíkurbyggð. Þá styrktu tvær þorrablótsnefndir félagið á árinu 2019 og var féð nýtt til að láta bólstra 25 stóla á Rimum sem nýtast m.a. á þorrablótum og öðrum samkomum.  Venju samkvæmt var ýmislegt til umræðu á fundinum undir liðnum önnur mál og má þar nefna ástand félagsheimilisins, slátt fótboltavallarins og útgáfu afmælisrits í tilefni af 100 ára afmæli ungmennafélagsins þann 27. desember 2021. Hefur Þórarinn Hjartarson verið fenginn til að taka saman sögu félagsins og hafa fengist styrkvilyrði vegna þessa verkefnis frá KEA og úr fræðslu- og verkefnasjóði UMSE. Á fundinum var ákveðið að auglýsa eftir myndum úr sögu félagsins sem gaman væri að setja í afmælisritið. 
Ákveðið var að reyna að halda úti fótboltaæfingum einu sinni í viku í sumar fyrir 15 ára og yngri en ekki er talinn grundvöllur fyrir æfingum eldri iðkenda. Fundarmenn lýstu yfir áhyggjum sínum af ástandi félagsheimilisins Rima þar sem viðhaldi og rekstri er ekki sinnt sem skyldi. Vonandi rætist úr. 

Ýmislegt fleira var rætt og enn meira snætt af Tommu pítsum en þegar menn höfðu fengið nægju sína sleit Jón Haraldur formaður fundi. 

Íþróttaspriklið í pásu fram á haust

posted Jun 17, 2020, 2:59 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Vegna COVID-19 kórónaveirufaraldursins var öllu íþróttastarfi hætt um miðjan mars. 
Gert er ráð fyrir að íþróttaspriklið vinsæla hefjist aftur á Rimum í október 2020. 

Aðalfundur Umf. Þ.Sv. 2020

posted Jun 17, 2020, 2:56 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður heldur aðalfund sinn á Rimum þriðjudagskvöldið 16. júní næstkomandi kl. 20:30.

Dagskrá fundarins: 
1. Fundargerð síðasta aðalfundar
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar
4. Tillögur 
5. Kosningar

6. Inntaka nýrra félaga
7. Skipan nefnda
8. Önnur mál

Jafnframt verður boðið upp á pítsu. Vonumst til að sjá sem flesta.

Stjórnin

Þrettándabrenna 11. janúar 2020

posted Jun 17, 2020, 2:39 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Þrettándabrenna Umf. Þorsteins Svörfuðar var haldin á Tungunum laugardagskvöldið 11. janúar. Upphaflega átti brennan að fara fram viku fyrr, laugardagskvöldið 4. janúar, en vegna slæmrar veðurspár og ófærðar var henni frestað. 
Vel tókst til með brennuhald og sá Björgunarsveitin á Dalvík um flugeldasýningu venju samkvæmt. 

Þrettándabrennu frestað um viku

posted Jan 3, 2020, 7:32 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Góðan dag. 

Vegna slæmrar veðurspár og ófærðar hefur þrettándabrennu Umf. Þorsteins Svörfuðar sem fara átti fram laugardagskvöldið 4. janúar verið frestað um viku. Fyrirhugað er að brennan fari fram við Tunguréttina laugardagskvöldið 11. janúar kl. 20:30. Björgunarsveitin verður með flugeldasýningu venju samkvæmt. Rétt er að vekja athygli á því að Björgunarsveitin býður fólki að stækka sýninguna þegar fólk kaupir flugelda af sveitinni núna fyrir þrettándann.
https://www.facebook.com/bjorgunarsveitin.dalvik/  

Virðingarfyllst.
Brennunefnd Umf. Þorsteins Svörfuðar

Úrslit brúsmóts 2019

posted Dec 28, 2019, 2:21 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Hið árlega brúsmót Umf. Þ.Sv. var haldið á Rimum að kveldi 27. desember.
Spilað var á 5 borðum líkt og í fyrra og var hart tekist á í spilamennskunni.

Úrslit urðu sem hér segir:
1. sæti JóSi 74 stig
2. sæti Guðmar 71 stig
3. sæti Team Guðleifur 65 stig
Klórningarverðlaun, liðið JR.

Stjórn Umf. Þ.Sv. þakkar spilurum fyrir þátttökuna. 
Meðfylgjandi er mynd af vinningshöfum kvöldsins. 

Umf. Þ.Sv. fær styrk frá KEA

posted Dec 22, 2019, 2:07 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður   [ updated Dec 22, 2019, 2:10 AM ]

KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði félagsins, sunnudaginn 1. desember síðastliðinn og fór styrkúthlutunin fram í Menningarhúsinu Hofi. Þetta var í 86. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Auglýst var eftir styrkjum í október síðastliðnum og bárust 154 umsóknir. Úthlutað var tæpum 15 milljónum króna til 52 aðila.
Styrkúthlutun tók til fjögurra flokka samkvæmt reglugerð sjóðsins: Menningar- og samfélagsverkefna, Rannsókna- og menntamála, ungra afreksmanna og Íþrótta- og æskulýðsfélaga.
Meðal þeirra aðila sem hlutu styrk að þessu sinni úr flokknum Menningar- og samfélagsverkefni var Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður vegna fyrirhugaðrar útgáfu 100 ára afmælisrits félagsins árið 2021. Einar Hafliðason gjaldkeri veitti styrknum viðtöku. Styrkvilyrðið er 250.000 kr. en áður hafði félagið fengið styrkvilyrði sömu fjárhæðar úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMSE. Það er því allt útlit fyrir að af þessari útgáfu geti orðið en málið er í höndum stjórnar félagsins.

Nánar má lesa um styrkúthlutun KEA á kea.is. Meðfylgjandi er mynd af styrkþegum, tekin í Hofi 1. desember. 

Þrettándabrenna 4. janúar 2020

posted Dec 22, 2019, 1:51 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Laugardagskvöldið 4. janúar n.k. verður hin árlega þrettándabrenna á vegum Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar haldin við Tungurétt í Svarfaðardal. Kveikt verður í brennunni kl. 20:30. Að vanda verður björgunarsveitin með flugeldasýningu.

Brúsmót á Rimum 27. desember

posted Dec 22, 2019, 1:48 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður heldur sitt árlega brúsmót á Rimum föstudagskvöldið 27. desember kl. 20:30. Spilað verður eftir atbrúsreglum eins og á heimsmeistarmótinu. 
Mótsgjald er 500 kr. á mann, ekki posi á staðnum. Allir velkomnir. 
Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður

1-10 of 138