Fréttir

Íþróttaspriklið í pásu fram á haust

posted Jun 17, 2020, 2:59 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Vegna COVID-19 kórónaveirufaraldursins var öllu íþróttastarfi hætt um miðjan mars. 
Gert er ráð fyrir að íþróttaspriklið vinsæla hefjist aftur á Rimum í október 2020. 

Aðalfundur Umf. Þ.Sv. 2020

posted Jun 17, 2020, 2:56 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður heldur aðalfund sinn á Rimum þriðjudagskvöldið 16. júní næstkomandi kl. 20:30.

Dagskrá fundarins: 
1. Fundargerð síðasta aðalfundar
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar
4. Tillögur 
5. Kosningar

6. Inntaka nýrra félaga
7. Skipan nefnda
8. Önnur mál

Jafnframt verður boðið upp á pítsu. Vonumst til að sjá sem flesta.

Stjórnin

Þrettándabrenna 11. janúar 2020

posted Jun 17, 2020, 2:39 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Þrettándabrenna Umf. Þorsteins Svörfuðar var haldin á Tungunum laugardagskvöldið 11. janúar. Upphaflega átti brennan að fara fram viku fyrr, laugardagskvöldið 4. janúar, en vegna slæmrar veðurspár og ófærðar var henni frestað. 
Vel tókst til með brennuhald og sá Björgunarsveitin á Dalvík um flugeldasýningu venju samkvæmt. 

Þrettándabrennu frestað um viku

posted Jan 3, 2020, 7:32 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Góðan dag. 

Vegna slæmrar veðurspár og ófærðar hefur þrettándabrennu Umf. Þorsteins Svörfuðar sem fara átti fram laugardagskvöldið 4. janúar verið frestað um viku. Fyrirhugað er að brennan fari fram við Tunguréttina laugardagskvöldið 11. janúar kl. 20:30. Björgunarsveitin verður með flugeldasýningu venju samkvæmt. Rétt er að vekja athygli á því að Björgunarsveitin býður fólki að stækka sýninguna þegar fólk kaupir flugelda af sveitinni núna fyrir þrettándann.
https://www.facebook.com/bjorgunarsveitin.dalvik/  

Virðingarfyllst.
Brennunefnd Umf. Þorsteins Svörfuðar

Úrslit brúsmóts 2019

posted Dec 28, 2019, 2:21 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Hið árlega brúsmót Umf. Þ.Sv. var haldið á Rimum að kveldi 27. desember.
Spilað var á 5 borðum líkt og í fyrra og var hart tekist á í spilamennskunni.

Úrslit urðu sem hér segir:
1. sæti JóSi 74 stig
2. sæti Guðmar 71 stig
3. sæti Team Guðleifur 65 stig
Klórningarverðlaun, liðið JR.

Stjórn Umf. Þ.Sv. þakkar spilurum fyrir þátttökuna. 
Meðfylgjandi er mynd af vinningshöfum kvöldsins. 

Umf. Þ.Sv. fær styrk frá KEA

posted Dec 22, 2019, 2:07 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður   [ updated Dec 22, 2019, 2:10 AM ]

KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði félagsins, sunnudaginn 1. desember síðastliðinn og fór styrkúthlutunin fram í Menningarhúsinu Hofi. Þetta var í 86. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Auglýst var eftir styrkjum í október síðastliðnum og bárust 154 umsóknir. Úthlutað var tæpum 15 milljónum króna til 52 aðila.
Styrkúthlutun tók til fjögurra flokka samkvæmt reglugerð sjóðsins: Menningar- og samfélagsverkefna, Rannsókna- og menntamála, ungra afreksmanna og Íþrótta- og æskulýðsfélaga.
Meðal þeirra aðila sem hlutu styrk að þessu sinni úr flokknum Menningar- og samfélagsverkefni var Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður vegna fyrirhugaðrar útgáfu 100 ára afmælisrits félagsins árið 2021. Einar Hafliðason gjaldkeri veitti styrknum viðtöku. Styrkvilyrðið er 250.000 kr. en áður hafði félagið fengið styrkvilyrði sömu fjárhæðar úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMSE. Það er því allt útlit fyrir að af þessari útgáfu geti orðið en málið er í höndum stjórnar félagsins.

Nánar má lesa um styrkúthlutun KEA á kea.is. Meðfylgjandi er mynd af styrkþegum, tekin í Hofi 1. desember. 

Þrettándabrenna 4. janúar 2020

posted Dec 22, 2019, 1:51 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Laugardagskvöldið 4. janúar n.k. verður hin árlega þrettándabrenna á vegum Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar haldin við Tungurétt í Svarfaðardal. Kveikt verður í brennunni kl. 20:30. Að vanda verður björgunarsveitin með flugeldasýningu.

Brúsmót á Rimum 27. desember

posted Dec 22, 2019, 1:48 AM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður heldur sitt árlega brúsmót á Rimum föstudagskvöldið 27. desember kl. 20:30. Spilað verður eftir atbrúsreglum eins og á heimsmeistarmótinu. 
Mótsgjald er 500 kr. á mann, ekki posi á staðnum. Allir velkomnir. 
Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður

Íþróttaspriklið hefst á ný 17. október

posted Oct 13, 2019, 3:59 PM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Íþróttanefnd Umf. Þorsteins Svörfuðar stendur fyrir íþróttasprikli í salnum á Rimum öll fimmtudagskvöld í vetur kl. 20:30. Fyrsti tíminn verður næstkomandi fimmtudagskvöld, 17. október. 
Frítt fyrir félagsmenn - stöðvaþjálfun, leikir og æfingar sem henta hverjum og einum. Verið velkomin!
Íþróttanefnd Umf. Þorsteins Svörfuðar.

Fréttir af 98. aðalfundi Umf. Þ.Sv.

posted Apr 17, 2019, 2:58 PM by Umf. Þorsteinn Svörfuður

Að kveldi föstudagsins 12. apríl var 98. aðalfundur Umf. Þorsteins Svörfuðar haldinn. Fundurinn fór fram í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal og voru aðstæður allar hinar bestu. Mæting á fundinn var framúrskarandi góð hjá stjórninni en þar að auki mættu nokkrir félagsmenn til fundarins og var það mikið gleðiefni.
Eftirfarandi tillögur voru samþykktar: 
a.       að ekki verði innheimt árgjald fyrir árið 2019.
b.      að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann.

Kosið var um þau Einar Hafliðason, Jónínu H. Gunnlaugsdóttur og Friðrik Arnarsson í stjórn. Þau gáfu öll kost á sér til áframhaldandi setu og voru endurkosin með lófaklappi og fagnaðarlátum. Lagt var til að Sigurlaug Hafliðadóttir, Jón Bjarki Hjálmarsson og Kjartan Árnason skipi varastjórn til eins árs. Það var samþykkt með álíka lófaklappi og fagnaðarlátum. 

Stjórn félagsins skipa:

Jón Haraldur Sölvason, formaður

Einar Hafliðason, gjaldkeri.

Friðrik Arnarson, varaformaður.

Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir, ritari.

Ómar Hjalti Sölvason, meðstjórnandi. 

Ýmis mál voru til umræðu á fundinum, svo sem ástand fótboltavallarins, yfirvofandi 100 ára afmæli félagsins og sú staðreynd að Tomman skyldi vera lokuð sem varð til þess að fundarmönnum var að þessu sinni boðið upp á hamborgara en ekki pítsur. Hugmyndir eru uppi um að gera lagabreytingu á næsta aðalfundi þess efnis að ekki megi halda aðalfund nema Tomman sé opin. Þá var einnig rætt um Sundskála Svarfdæla og eftir nokkrar umræður sendi fundurinn frá sér eftirfarandi ályktun;

"98. aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar haldinn að Rimum 12. apríl 2019 harmar hvernig komið er fyrir Sundskála Svarfdæla og skorar á ráðamenn sveitarfélagsins að koma málefnum Sundskálans í viðeigandi farveg. Ungmennafélagið minnir á að Sundskálinn verður 90 ára sumardaginn fyrsta næstkomandi og hefur skálinn staðið auður í allt of langan tíma. Fundarmenn leggja áherslu á að mikilvægt sé að sundskálanum verði fundið hlutverk til framtíðar og félagsmenn lýsa sig reiðubúna að koma að þeirra vinnu."

Ekki þótti ástæða til frekari umræðna og sleit formaður fundi skömmu síðar. 


1-10 of 136