Fréttir af 96. ársþingi UMSE

Dagsetning birtingar: 14.3.2017 20:05:41

Í síðustu viku fór fram ársþing UMSE í Árskógi. Umf. Þorsteinn Svörfuður átti þar tvo þingfulltrúa, auk þess sem Umf. Þorsteinn Svörfuður á fulltrúa í stjórn UMSE og í sjóðsstjórn Fræðslu- og verkefnasjóðs UMSE. Tveimur félagsmönnum í Umf. Þorsteini Svörfuði, þeim Einari Hafliðasyni og Jónínu Heiðveigu Gunnlaugsdóttur, var veitt starfsmerki UMSE á þinginu fyrir störf sín í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála. Hér fyrir neðan er fréttatilkynning frá UMSE.

Fréttatilkynning frá UMSE:

Fimmtudaginn 9. mars fór fram 96. ársþing UMSE í félagsheimilinu Árskógi. Þingið var vel sótt, en 35 af mögulegum 45 fulltrúum voru mættir á þingið, frá 12 af 13 aðildarfélögum og stjórn UMSE, sem gerir um 78 % mætingu. Auk þeirra voru starfsmenn þingsins og gestir frá Dalvíkurbyggð, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands. Voru alls 43 mættir á þingið og verður því að segjast að þingið hafi verið eitt það best sótta í fjölmörg ár.

Töluvert af málum lá fyrir þinginu. Þar má helst nefna reglugerðabreytingar á sjóðum og lottóúthlutun og stefnur um fræðslu- og forvarnir, félagsmál, jafnréttismál og umhverfismál. Hlutfall þeirra lottófjármuna sem runnið hafa til reksturs UMSE var lækkað, en það hlutfall sem samsvarar lækkuninni mun nú renna inn í Fræðslu- og verkefnasjóð UMSE, sem fyrir þingið hét Landsmótssjóður UMSE 2009. Með því var sjóðnum tryggður tekjustofn og lengri líftími, en honum var upphaflega ætlað að greiðast út í heild sinni á 10 árum. Þær málefnastefnur sem samþykktar voru á þinginu eru hluti af vinnu sem ákveðin var á 94. ársþingi UMSE í tengslum við stefnu UMSE 2015-2020 sem samþykkt var á sama þingi. Einnig er sú vinna liður í að UMSE öðlist gæðavottunina fyrirmyndaríþróttahérað ÍSÍ, en sú vinna er á lokametrunum.

Á þinginu var fjórum einstaklingum veitt heiðursviðurkenning frá UMSE. Það voru Einar Hafliðason, Umf. Þorsteini Svörfuði, Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir, Umf. Þorsteini Svörfuði, Linda Stefánsdóttir, Umf. Æskunni og Tryggvi Guðmundsson, Umf. Reyni sem öll hlutu starfsmerki UMSE fyrir störf sín í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála. Þorsteini Marinóssyni, framkvæmdastjóra UMSE var veitt starfsmerki UMFÍ.

Til setu í stjórn UMSE voru endurkjörnir sem varaformaður Sigurður Eiríksson, Umf. Samherjum og sem gjaldkeri Einar Hafliðason, Umf. Þorsteini Svörfuði. Sömuleiðis voru endurkjörin í varastjórn Guðrún Sigurðardóttir, Umf. Svarfdæla, Björgvin Hjörleifsson, Skíðafélagi Dalvíkur og Elvar Óli Marinósson, Umf. Reyni.

Í sjóðsstjórn Fræðslu- og verkefnasjóðs UMSE voru kjörin Hringur Hreinsson, Umf. Æskunni og Jóhanna Gunnlaugsdóttir, Umf. Þorsteini Svörfuði. Sjóðurinn hlaut, sem áður segir, nýtt nafn á þinginu, en hann hét áður Landsmótssjóður UMSE 2009 og sátu þau bæði í sjóðsstjórn hans áður og voru því í raun endurkjörin.

Sem skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnar Anna Kristín Árnadóttir og Elín Margrét Stefánsdóttir. Þær koma báðar frá Hestamannafélaginu Funa. Til vara voru kjörnir Haukur Snorrason, Umf. Reyni og Níels Helgason, Umf. Samherjum.

Uppstillingarnefnd fyrir næsta þing munu skipa formenn hestamannafélaganna þriggja innan UMSE, Hestamannafélagsins Funa, Hestamannafélagsins Hrings og Hestamannafélagsins Þráins.

Hestamannafélagið Hringur hlaut Félagasmálabikar UMSE.

Forsetar þingsins voru Marinó Þorsteinsson og Sveinn Jónsson, frá Umf. Reyni og ritarar Kristlaug María Valdimarsdóttir, Umf. Smáranum og Hólmfríður Gísladóttir, Sundfélaginu Rán. Gestir þingsins voru Þórunn Andrésdóttir úr íþrótta- og æskulýðsráði Dalvíkurbyggðar, Björn Grétar Baldursson, stjórnarmaður UMFÍ, Ingi Þór Ágústson, stjórnarmaður ÍSÍ og Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri.

Ársskýrsla UMSE 2016, sem gefin var út á þinginu, er nú aðgengileg á vefsíðu UMSE www.umse.is og verður þinggerðin sömuleiðis aðgengileg þar innan skamms.

Myndir af þinginu er að finna á Facebook síðu UMSE:

www.facebook.com/ungmennasamband.eyjafjardar