Fréttir af 98. aðalfundi Umf. Þ.Sv.

Dagsetning birtingar: 17.4.2019 21:58:38

Að kveldi föstudagsins 12. apríl var 98. aðalfundur Umf. Þorsteins Svörfuðar haldinn. Fundurinn fór fram í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal og voru aðstæður allar hinar bestu. Mæting á fundinn var framúrskarandi góð hjá stjórninni en þar að auki mættu nokkrir félagsmenn til fundarins og var það mikið gleðiefni.

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar:

a. að ekki verði innheimt árgjald fyrir árið 2019.

b. að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann.

Kosið var um þau Einar Hafliðason, Jónínu H. Gunnlaugsdóttur og Friðrik Arnarsson í stjórn. Þau gáfu öll kost á sér til áframhaldandi setu og voru endurkosin með lófaklappi og fagnaðarlátum. Lagt var til að Sigurlaug Hafliðadóttir, Jón Bjarki Hjálmarsson og Kjartan Árnason skipi varastjórn til eins árs. Það var samþykkt með álíka lófaklappi og fagnaðarlátum.

Stjórn félagsins skipa:

Jón Haraldur Sölvason, formaður

Einar Hafliðason, gjaldkeri.

Friðrik Arnarson, varaformaður.

Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir, ritari.

Ómar Hjalti Sölvason, meðstjórnandi.

Ýmis mál voru til umræðu á fundinum, svo sem ástand fótboltavallarins, yfirvofandi 100 ára afmæli félagsins og sú staðreynd að Tomman skyldi vera lokuð sem varð til þess að fundarmönnum var að þessu sinni boðið upp á hamborgara en ekki pítsur. Hugmyndir eru uppi um að gera lagabreytingu á næsta aðalfundi þess efnis að ekki megi halda aðalfund nema Tomman sé opin. Þá var einnig rætt um Sundskála Svarfdæla og eftir nokkrar umræður sendi fundurinn frá sér eftirfarandi ályktun;

"98. aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar haldinn að Rimum 12. apríl 2019 harmar hvernig komið er fyrir Sundskála Svarfdæla og skorar á ráðamenn sveitarfélagsins að koma málefnum Sundskálans í viðeigandi farveg. Ungmennafélagið minnir á að Sundskálinn verður 90 ára sumardaginn fyrsta næstkomandi og hefur skálinn staðið auður í allt of langan tíma. Fundarmenn leggja áherslu á að mikilvægt sé að sundskálanum verði fundið hlutverk til framtíðar og félagsmenn lýsa sig reiðubúna að koma að þeirra vinnu."

Ekki þótti ástæða til frekari umræðna og sleit formaður fundi skömmu síðar.