Fréttir af aðalfundi Umf. Þ.Sv.
Dagsetning birtingar: 25.3.2016 17:05:03
Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt 95. aðalfund sinn að kveldi miðvikudagsins 23. mars á Rimum.
Mæting á fundinn var ögn undir væntingum, en væntingarnar voru kannski ekki raunhæfar.
Gengið var til hefðbundinnar dagskrár í bland við hefðbundnar veitingar, Jón Haraldur Sölvason formaður var fundarstjóri og sá jafnframt um að panta pítsurnar.
Jón Haraldur las upp skýrslu stjórnar og Einar Hafliðason las upp reikninga. Hagnaður ársins var 95 þús. kr. og rekstur félagsins í jafnvægi.
Skýrslan og reikningarnir voru bornir upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.
Tvær tillögur voru samþykktar; annars vegar að innheimta ekki árgjöld fyrir árið 2016 og hins vegar að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann.
Félagar eru hvattir til að nýta sér þennan möguleika falli þeir undir þessa skilgreiningu.
Kosið var um tvo menn í stjórn; Jón Harald Sölvason og Ómar Hjalta Sölvason. Báðir gáfu þeir kost á sér áfram og voru þeir báðir endurkjörnir með dynjandi lófaklappi. Stjórn skipa því þeir tveir ásamt Einari Hafliðasyni, Friðriki Arnarsyni og Jónínu Heiðveigu Gunnlaugsdóttur.
Einnig var kosið um skoðunarmenn til 2 ára, Klemenz Bjarki Gunnarsson og Margrét Víkingsdóttir voru endurkjörnir skoðunarmenn, Karl Ingi Atlason til vara.
Varastjórn var kosin, hana skipa Sigurlaug Hafliðadóttir, Karl Heiðar Friðriksson og Herbert Hjálmarsson. Sú kosning var nokkuð átakalítil, enda ekkert þeirra þriggja mætt á fundinn til að mótmæla.
Stjórn lagði fram tillögu um nefndaskipan og var sú tillaga samþykkt samhljóða. Sjoppunefnd: Einar Hafliðason formaður, Jónína H. Gunnlaugsdóttir og Gylfi Hjálmarsson. Til vara Björn Júlíusson.
Íþróttanefnd: Jónína H. Gunnlaugsdóttir formaður, Jón Bjarki Hjálmarsson, Orri Þórsson og Friðrik Arnarson. Sigurlaug Hanna Hafliðadóttir til vara.
Brennunefnd: Karl Ingi Atlason formaður, Gunnar Kristinn Guðmundsson, Jón Haraldur Sölvason, Karl Heiðar Friðriksson og Kjartan Árnason. Til vara Einar Hafliðason.
Undir liðnum önnur mál var rætt um nýja galla sem UMSE býður nú aðildarfélögum til kaups. Toppmenn og sport á Akureyri munu sjá um sölu á göllunum. UMSE mun niðurgreiða gallana fyrir þá sem áhuga hafa, Umf. Þ.Sv. mun bæta við þá niðurgreiðslu fyrir félagsmenn sína. Það mál verður kynnt afar fljótlega.
Fleiri mál voru rædd, svo sem stóra sundskálamálið, sláttur á fótboltavellinum sem þótti afar góður síðasta sumar og loks yfirvofandi aldarafmæli félagsins - og hvernig ætti að bregðast við því. Ýmsar hugmyndir voru viðraðar - áhugasamir söguritarar mega gjarnan hafa samband við stjórn félagsins hafi þeir áhuga á að rita 100 ára sögu ungmennafélagsins.
Þar sem tungl var fullt var ákveðið að slíta fundi á kristilegum tíma.