Forvarnardagur UMFÍ

Dagsetning birtingar: 3.10.2013 13:46:33

Forvarnardagur 2013 verður haldinn miðvikudaginn 9. október næstkomandi. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Blaðamannafundur vegna dagsins fer fram í Háaleitisskóla mánudaginn 7.október næstkomandi. Þar munu allir samstarfsaðilar flytja stutt erindi og fjalla um forvarnir í sínu starfi.

Ungmennafélag Íslands hvetur sambandsaðila til að vekja athygli á deginum, heimsækja skóla á sínu sambandssvæði og vekja athygli á því starfi sem við höfum fram að færa. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins http://www.forvarnardagur.is/.