Fréttir af 96. aðalfundi Umf. Þ.Sv.
Dagsetning birtingar: 14.4.2017 23:10:31
Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt sinn 96. aðalfund að kveldi miðvikudagsins 12. apríl á Rimum. Mæting á fundinn var ekki þess efnis að greina þurfi frá henni í smáatriðum en þó er hægt að segja að varaformaður félagsins var staddur í Bandaríkjunum og því var kallaður inn fyrsti varamaður í hans stað sem kom beina leið frá Danmörku til að sitja fundinn. Sem sagt, afar kostnaðarsamur aðalfundur fyrir ungmennafélagið hvað varðar ferðakostnað.
Kosið var um þrjá menn í stjórn; Friðrik Arnarson, Einar Hafliðason og Jónínu Heiðveigu Gunnlaugsdóttur. Öll gáfu þau kost á sér áfram og öll voru þau endurkjörin með dynjandi lófaklappi.
Ungmennafélagið skilaði á þriðja hundrað þúsund krónum í afgang árið 2016 og er reksturinn í góðu horfi.
Ýmislegt var rætt á fundinum venju samkvæmt, svo sem sláttur fótboltavallarins, pítsuálegg, endurvakning Jónsmessugleði á 100 ára afmæli félagsins og útgáfa nýrrar félagsmyndar af sama tilefni.
Eftir að formaður félagsins hafði þulið upp hverjir væru skráðir í ungmennafélagið var fundi slitið.