Fréttir af 97. aðalfundi Umf. Þ.Sv.

Dagsetning birtingar: 29.3.2018 19:03:17

97. aðalfundur Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar var haldinn á Rimum að kveldi miðvikudagsins 28. mars. Stjórnin mætti nánast öll og þá sá einn og einn félagi sér líka fært að mæta sem var mjög ánægjulegt. Reikningar félagsins voru samþykktir samhljóða. Líkt og undanfarin ár er félagið rekið réttum megin við núll sem er gleðiefni.

Kosið var um tvo menn í stjórn; Jón Harald Sölvason og Ómar Hjalta Sölvason. Voru þeir endurkjörnir til næstu tveggja ára við mikil og áköf fagnaðarlæti. Þá voru kosin í varastjórn til eins árs þau Jón Bjarki Hjálmarsson, Kjartan Snær Árnason og Sigurlaug Hanna Hafliðadóttir. Skipað var í sjoppunefnd, íþróttanefnd og brennunefnd og eru þessar nefndir allar mjög vel skipaðar.

Eitt og annað var rætt á fundinum og má þar nefna slátt fótboltavallarins, álegg á pítsur, dapra stöðu félagsheimilisins Rima, framtíð Sundskála Svarfdæla og önnur þjóðþrifamál.

Þegar fundarmenn voru orðnir tiltölulega mettir sleit formaður fundi.