Fréttir af 99. aðalfundi Umf. Þ.Sv.

Dagsetning birtingar: 16.7.2020 22:45:10

Að kveldi þriðjudagsins 16. júní var 99. aðalfundur Umf. Þorsteins Svörfuðar haldinn. Í venjulegu árferði hefði fundurinn farið fram í mars eða apríl en vegna kórónaveirufaraldursins hafði ekki reynst unnt að halda fundinn fyrr en nú.

Fundurinn fór fram í félagsheimilinu Rimum í Svarfaðardal og voru aðstæður með besta móti. Mæting á fundinn var framúrskarandi góð hjá stjórninni en þar að auki mættu fundargestir til fundar og var það ánægjulegt. Þess má til gamans geta að samkvæmt opinberri skráningu eru félagsmenn nú 93 talsins.

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar:

a. að ekki verði innheimt árgjald fyrir árið 2020.

b. að félagið greiði æfinga- og keppnisgjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og/eða knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en kr. 15.000- á ári fyrir félagsmann.

Kosið var um Jón Harald Sölvason og Ómar Hjalta Sölvason í stjórn. Þeir gáfu kost á sér til áframhaldandi setu og voru endurkosnir með lófaklappi og fögnuði. Lagt var til að Sigurlaug Hanna Hafliðadóttir, Jón Bjarki Hjálmarsson og Kjartan Árnason skipi varastjórn til eins árs og var það samþykkt. Þá voru Karl Ingi Atlason og Klemenz Bjarki Gunnarsson endurkjörnir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára. Þá var kosið í sjoppunefnd, íþróttanefnd, brennunefnd og afmælisnefnd í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 2021.

Stjórn félagsins skipa:

Jón Haraldur Sölvason, formaður

Einar Hafliðason, gjaldkeri.

Friðrik Arnarson, varaformaður.

Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir, ritari.

Ómar Hjalti Sölvason, meðstjórnandi.

Rekstur félagsins er traustur sem fyrr en langstærsti tekjupósturinn ár hvert er styrkur frá Dalvíkurbyggð. Þá styrktu tvær þorrablótsnefndir félagið á árinu 2019 og var féð nýtt til að láta bólstra 25 stóla á Rimum sem nýtast m.a. á þorrablótum og öðrum samkomum. Venju samkvæmt var ýmislegt til umræðu á fundinum undir liðnum önnur mál og má þar nefna ástand félagsheimilisins, slátt fótboltavallarins og útgáfu afmælisrits í tilefni af 100 ára afmæli ungmennafélagsins þann 27. desember 2021. Hefur Þórarinn Hjartarson verið fenginn til að taka saman sögu félagsins og hafa fengist styrkvilyrði vegna þessa verkefnis frá KEA og úr fræðslu- og verkefnasjóði UMSE. Á fundinum var ákveðið að auglýsa eftir myndum úr sögu félagsins sem gaman væri að setja í afmælisritið.

Ákveðið var að reyna að halda úti fótboltaæfingum einu sinni í viku í sumar fyrir 15 ára og yngri en ekki er talinn grundvöllur fyrir æfingum eldri iðkenda. Fundarmenn lýstu yfir áhyggjum sínum af ástandi félagsheimilisins Rima þar sem viðhaldi og rekstri er ekki sinnt sem skyldi. Vonandi rætist úr.

Ýmislegt fleira var rætt og enn meira snætt af Tommu pítsum en þegar menn höfðu fengið nægju sína sleit Jón Haraldur formaður fundi.