Sterku brúsmóti Umf. Þ.Sv. lokið
Dagsetning birtingar: 28.12.2015 13:54:17
Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt sitt árlega brúsmót á Rimum að kvöldi 27. desember, fimmta árið í röð. Mótið var óhemju sterkt að þessu sinni, enda mættir til leiks núverandi og fyrrverandi heimsmeistarar og margfaldir verðlaunahafar á heimsmeistaramótum og brúsmótum Umf. Þ.Sv. gegnum árin.
Spilað var á 6 borðum og var nokkur hasar í spilamennskunni. Eins var nokkur hasar þegar kom að því að skipta um borð eftir hverja lotu, þannig að liðin myndu ekki lenda á móti sömu andstæðingum trekk í trekk. Allt gekk þó upp að lokum. Á eftir var boðið upp á kaffi og góðgæti.
Í öll fjögur skiptin sem mótið hafði verið haldið stóð liðið Guðmar uppi sem sigurvegari, skipað þeim Guðrúnu Ingvadóttur og Margréti Birnu Kristinsdóttur. Breyting varð á þessu nú þar sem liðið GG, skipað þeim Þorgerði Sveinbjarnardóttur og Guðlaugu Antonsdóttur, stóð uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti varð liðið Kalli og Gunnar, skipað þeim Karli Inga Atlasyni og Gunnari Kristni Guðmundssyni og í þriðja sæti varð liðið J og J, skipað þeim Jóni Hreinssyni og Jónínu Heiðveigu Gunnlaugsdóttur.
Klórningaverðlaun hlutu þeir Hjörleifur Sveinbjarnarson og Guðni Berg Einarsson.
Stjórn Umf. Þorsteins Svörfuðar þakkar brússpilurunum kærlega fyrir þátttökuna!