Umf. Þ.Sv. fær styrk frá KEA
Dagsetning birtingar: 22.12.2019 10:07:05
KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði félagsins, sunnudaginn 1. desember síðastliðinn og fór styrkúthlutunin fram í Menningarhúsinu Hofi. Þetta var í 86. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Auglýst var eftir styrkjum í október síðastliðnum og bárust 154 umsóknir. Úthlutað var tæpum 15 milljónum króna til 52 aðila.
Styrkúthlutun tók til fjögurra flokka samkvæmt reglugerð sjóðsins: Menningar- og samfélagsverkefna, Rannsókna- og menntamála, ungra afreksmanna og Íþrótta- og æskulýðsfélaga.
Meðal þeirra aðila sem hlutu styrk að þessu sinni úr flokknum Menningar- og samfélagsverkefni var Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður vegna fyrirhugaðrar útgáfu 100 ára afmælisrits félagsins árið 2021. Einar Hafliðason gjaldkeri veitti styrknum viðtöku. Styrkvilyrðið er 250.000 kr. en áður hafði félagið fengið styrkvilyrði sömu fjárhæðar úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMSE. Það er því allt útlit fyrir að af þessari útgáfu geti orðið en málið er í höndum stjórnar félagsins.
Nánar má lesa um styrkúthlutun KEA á kea.is. Meðfylgjandi er mynd af styrkþegum, tekin í Hofi 1. desember.